Handbolti

Tókst eftir tíu ára bið: „Hef alltaf haft trú“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Bjarki Már fagnar sæti í undanúrslitum ásamt Ómari Inga og Óðni Þór í höllinni í Malmö. Strembið verkefni bíður nú í Herning í dag.
Bjarki Már fagnar sæti í undanúrslitum ásamt Ómari Inga og Óðni Þór í höllinni í Malmö. Strembið verkefni bíður nú í Herning í dag. Vísir/Vilhelm

Bjarki Már Elísson hefur lengi beðið þess að komast í undanúrslit á stórmóti með íslenska landsliðinu. Hann ætlar að njóta augnabliksins er Ísland mætir Dönum í Herning í kvöld.

„Í gær (í fyrradag) var þetta náttúrulega algjör alsæla eftir leik. Loksins. Þetta er mitt tíunda stórmót og þetta tókst í tíundu tilraun. Ég hef samt alltaf haft trú á því að við værum að fara að gera þetta hvert einasta ár,“ segir Bjarki Már í samtali við Vísi.

Íslenska liðið sé ekki komið til þess eins að vera með. Besta leiðin til að njóta augnabliksins sé að spila vel.

„En þá kemur líka strax það að maður vill ekki bara koma hingað til að vera með heldur gera vel og fá einhver verðlaun fyrir það sem við höfum verið að gera. Núna er einbeiting á verkefnið, að njóta þess að vera hérna og maður nýtur þess náttúrulega best þegar vel gengur,“ segir Bjarki Már.

Eins og hann segir er einbeitingin mikil á verkefni dagsins enda þörf á. Andstæðingurinn ríkjandi heimsmeistarar Danmerkur á þeirra heimavelli.

„Þeir eru bara besta landslið í heimi enda heimsmeistarar. Þeir eru ótrúlega góðir, með tvo til þrjá frábæra leikmenn í öllum stöðum en ef þú ætlar langt endarðu alltaf á að mæta þessum þjóðum. Við tökum þessu verkefni fagnandi,“ segir Bjarki Már.

Eilífðar baráttan

Ísland mætir til leiks eftir skrautlegan milliriðil þar sem skiptist á skini og skúrum. Tvisvar missti liðið örlögin úr eigin höndum, með tapi fyrir Króötum og svo jafntefli við Sviss. Á milli þeirra leikja kom stórkostlegur sigur á Svíum og svo gegn Slóvenum til að tryggja sætið.

Verkefnið núna er að stilla spennustigið rétt eftir góðan sigur.

„Það er eilífðar barátta. Við höfum verið svolítið verið upp og niður, þó við höfum heilt yfir átt gott mót. Við ætlum okkur að eiga tvo góða leiki í röð núna, fyrst gegn Slóvenum og svo gegn Dönum,“ segir Bjarki sem hefur trú á verkefninu.

„Ég hef trú. Í öll þessi tíu skipti hef ég alltaf haft trú á því að við værum að fara í úrslit og það er ekkert breytt núna.“

Fleira kemur fram í viðtalinu við Bjarka sem sjá má í spilaranum.

Ísland mætir Danmörku klukkan 19:30 í Boxen í Herning í kvöld. Íþróttateymi Sýnar mun fylgja landsliðinu eftir og koma stemningunni vel til skila í fréttatímum Sýnar sem og á Vísi í allan dag.


Tengdar fréttir

Sigvaldi kallaður inn í íslenska hópinn

Sigvaldi Björn Guðjónsson, leikmaður Kolstad í Noregi, hefur verið kallaður inn í íslenska landsliðshópinn sem ferðaðist í dag til Herning. 

Aldrei séð Dag svona reiðan

Dagur Sigurðsson lét ráðamenn EHF, Handknattleikssambands Evrópu, gjörsamlega heyra það á blaðamannafundi í Herning í gær. Króatískir miðlar segja Dag hafa reiðst sérstaklega við tíðindi sem hann fékk á miðvikudagskvöld.

„Þetta eru bara menn sem vilja mikið og meira“

Íslenska karlalandsliðið í handbolta ætlaði sér í undanúrslit á Evrópumótinu og nú þegar því markmiði er náð er hætta á að hungrið vanti til að fara enn lengra. Sérfræðingarnir í Bestu sætinu veltu þessu fyrir sér.

„Þetta er bara einn af mönnum mótsins hingað til“

Elliði Snær Viðarsson hefur átt tvo mjög flotta leiki í sókninni í röð og verið markahæstur hjá íslenska landsliðinu í þeim báðum. Hann skoraði átta mörk úr níu skotum á móti Sviss og fylgdi því eftir með átta mörkum í níu skotum í sigrinum á Slóvenum. Elliði fékk líka hrós frá sérfræðingunum í Besta sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×