Innlent

Fífl­djarft að fara í for­manninn en varaformannsembættið...?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Sigmar segir fífldjarft að láta sér detta í hug að sækjast eftir formannsembættinu í Framsókn en varaformaðurinn... þar er hann óræður.
Sigmar segir fífldjarft að láta sér detta í hug að sækjast eftir formannsembættinu í Framsókn en varaformaðurinn... þar er hann óræður. Vísir/Vilhelm

„Mér finnst það mjög galið að ætla að stíga inn á sjónarsviðið beint inn í formannssætið í elsta og virtasta flokki landsins,“ segir Sigmar Vilhjálmsson athafnamaður, spurður að því hvort hann hyggist sækjast eftir formannsembættinu í Framsóknarflokknum.

Orðrómur hefur verið uppi um mögulega stjórnmálaþátttöku Sigmars og hann segist ekki geta farið leynt með það að menn hafi komið við hann að máli, eins og þeir segja gjarnan sem eru við það að detta inn í pólitíkina.

Sigmar er bæði skráður í Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn og hefur raunar daðrað við þriðja flokkinn til viðbótar, ef horft er til síðustu fimm kosninga segir hann. „Ég er klárlega miðju-hægrimaður,“ segir hann. „Þó ég vilji nú meina að allir flokkar í dag séu orðnir miðjuflokkar,“ bætir hann við.

Nei, hann virðist ekki á leið í formanninn samkvæmt því sem hann segir og hann hefur ekki áhuga á að láta til sín taka á sveitarstjórnarstiginu. Þó útilokar hann ekki að það muni bera til tíðinda af honum í tengslum við pólitík á þessu ári.

Ok... hvað þá með varaformanninn; er hann að horfa á varaformannsembættið í Framsókn?

„Það er alveg spennandi,“ segir hann. „Það sem hefur kannski vafist fyrir mér þegar kemur að stjórnmálum er að ég er ekkert endilega aftursætisbílstjóri.“ Sigmar segist leitast eftir því að vera í leiðtogahlutverki; í forystunni.

Áfram heldur spjallið og hann fer í krúsídúllur undan spurningunni eins og köttur í kringum heitan graut. Ætlar hann að sækjast eftir varaformannsembættinu?

„Varaformannsembættinu? Æ, ég veit ekki með það. Ég veit ekki hvort þetta er tímapunkturinn,“ segir hann en frekar ósannfærandi ef satt skal segja. „Ég alla vega kann þetta ekki,“ segir hann um pólitíkina. „Ég er algjörlega blautur á bakvið eyrað.“

Rammpólitískur er hann þó, að eigin sögn, og hefur sterkar skoðanir. Íslendingar séu eilíft að þvælast fyrir sjálfum sér, „þegar hlutirnir þurfa ekkert að vera svo flóknir. Við erum lítið og fallegt land og mér finnst við oft ekki nýta okkur kosti þess.“

Þá vitnar hann til samtals sem hann átti við Vigdísi Finnbogadóttur forseta fyrir mörgum árum.

„Hún sagði: Það tekur þjóð 100 ár að verða fullþroska. Og við eigum eftir að þurfa að ganga í gegnum ýmsa siðbót. Spillingarmál... við eigum eftir að ganga í gegnum alls konar áður en við verðum fullþroska þjóð,“ hefur Sigmar eftir frú forseta. 

„Mér finnst margt í þessu samtali hafa raungerst,“ bætir hann við. „Við erum fljótfær þjóð, sem einkennir líka unglinga og óþroskaða einstaklinga.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×