Mögulegur samruni Íslandsbanka og Arion, sem myndi búa til stærsta banka landsins og skapa mikla samlegð með aukinni stærðarhagkvæmni, yrði í senn flókinn og erfiður út frá samkeppnislegum sjónarmiðum, meðal annars þegar kæmi að stöðu sameinaðs banka á sviði innlánastarfsemi, eignastýringarmarkaðar og útlánum til fyrirtækja. Það var mat Bankasýslunnar árið 2020, sem þá hélt utan um eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka, að af samruna þessara banka gæti ekki orðið nema með sérstökum lögum en á það hefur verið bent að eigi að tryggja virka samkeppni á millibankamarkaði, til dæmis viðskipti með gjaldeyri, þurfi að vera að „lágmarki þrjár burðugar“ innlánstofnanir.