Handbolti

Þjóðverjar rúlluðu yfir Austurríkismenn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dagur gefur bendingar á hliðarlínunni í kvöld.
Dagur gefur bendingar á hliðarlínunni í kvöld. vísir/getty
Evrópumeistarar Þjóðverja fóru ansi illa með Austurríkismenn þegar liðin mættust í vináttulandsleik í Rothenbach-Halle í Kassel í kvöld. Lokatölur 33-16, Þýskalandi í vil. Þetta var síðasti leikur þýska liðsins fyrir HM í Frakklandi sem hefst á miðvikudaginn.

Dagur Sigurðsson hrósaði þarna sigri á vini sínum og fyrrum samherja úr íslenska landsliðinu, Patreki Jóhannessyni.

Það var lítil spenna í leiknum í Kassel í kvöld. Austurríkismenn byrjuðu leikinn reyndar vel en Þjóðverjar tóku svo völdin og voru sex mörkum yfir í hálfleik, 17-11. Í seinni hálfleik dró enn í sundur með liðunum og á endanum munaði 17 mörkum á þeim, 33-16.

Markaskorið dreifðist vel hjá þýska liðinu sem lítur vel út fyrir HM. Tobias Reichmann, Steffen Fäth og Jannick Kohlbacher skoruðu allir fjögur mörk fyrir Þýskaland í leiknum í kvöld.

Nikola Bilyk, leikmaður Kiel, var langatkvæðamestur hjá Austurríki og skoraði átta mörk, eða helming marka liðsins.

Þýskaland er í riðli með Króatíu, Hvíta-Rússlandi, Ungverjalandi, Síle og Sádí-Arabíu á HM. Fyrsti leikur þýska liðsins er gegn því ungverska á föstudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×