Innlent

Spádómur frá 1969 að rætast?

„Í fyrsta lagi eigum við við harðsnúinn mótstöðumann að etja sem er forseti landsins, en hann mun ekki hika við að beita neitunarvaldi sínu gegn framlengingu samningsins. Verður þá gengið til þjóðaratkvæðagreiðslu, og tel ég vafasamt að hún verði okkur í vil. Við eigum því í vök að verjast, og forsetakosningarnar, sem fram eiga að fara hér í sumar, munu verða okkur örlagaríkar, þar eð mikið veltur á, að maður okkur hliðhollur fari með æðstu völd landsins.“ Þetta segir í skáldsögunni Í skugga jarðar eftir Grétu Sigfúsdóttur frá árinu 1969 en sagan á að gerast hér á landi árið 1992. Andri Snær Magnason rithöfundur gerir bókina að umtalsefni sínu á baksíðu Fréttablaðsins í gær enda eiga sum atriði atburðarásinnar ótrúlega margt sammerkt með atburðunum sem átt hafa sér stað í þjóðfélaginu undanfarið. Í sögunni er Íslandi stjórnað af af erlendum „álfafyrirtækjum“ og eigendum þeirra sem „með ótakmörkuðu fjármagni sínu ráða hér lögum og lofum.“ Orðin hér að ofan eru höfð eftir aðalforstjóra fyrirtækjanna á hluthafafundi sem boðað er til vegna pólitískrar krísu sem upp kemur í sögunni. Nafn og fyrra starf forseta Íslands í þessari 35 ára gömlu skáldsögu er líka nokkuð kunnuglegt. Hann heitir dr. Grímur Grímsson og er fyrrverandi prófessor við Háskóla Íslands.     



Fleiri fréttir

Sjá meira


×