Innlent

Halldór ósammála lögmönnum

Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, er ósammála lögmönnum sem telja að fjölmiðlafrumvarpið nýja feli í sér stjórnarskrárbrot. Hann telur ekki nauðsynlegt að breyta neinu í meðferð málsins. Þingflokkur Framsóknarmanna fundaði í eina og hálfa klukkustund síðdegis um fjölmiðlamálið en að því loknu var á Halldóri Ásgrímssyni að sátt hefði ríkt og að engar breytingar hefðu orðið eftir að farið hefði verið yfir málið. Hann sagði óþægilegt að fá misvísandi lögfræðiálit en það væri ekki í fyrsta skipti sem lögfræðingar væru ekki sammála. Sjálfur hefði hann sína vissu.  Aðspurður hvort hann telji Sigurð Líndal og Eirík Tómasson hafa rangt fyrir sér sagðist Halldór ekkert ætla að fullyrða um það en hann kvaðst vera þeim ósammála. Formaður framsóknarflokksins segir Sigurð og Eirík segja að hægt sé að setja önnur lög síðar og segist Halldór ekki sjá muninn á því hvort það gerist núna eða einhvern tímann seinna. Hann segist hafa trúað því þau 30 ár sem hann hafi verið á Alþingi að löggjafarvaldið væri hjá þinginu.  Halldór er ekki á því að neinu þurfi að breyta, hvorki frumvarpinu né meðferð þess. Hann segist ekki sjá að það breyti miklu ef þetta frumvarp yrði tekið til baka og annað, nákvæmlega eins, yrði svo lagt fram á haustþingi. Aðspurður hvort þrýstingur sé um það innan Framsóknarflokksins sagði Halldór svo ekki vera en að skiptar skoðanir væru hjá flokksmönnum, eins og alltaf hafi verið í „stórum umdeildum málum“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×