Innlent

Breskur ráðherra til landsins

MYND/Eggert
Dr. Denis MacShane, Evrópumálaráðherra Bretlands, mun flytja opinn fyrirlestur sem ber yfirskriftina „Hin nýja Stjórnarskrá Evrópu - Álitamál og áhrif á EES löndin“ í Norræna húsinu nk. fimmtudag.. Auk þess mun  hann ræða stuttlega varnarmálastefnu Evrópusambandsins, stöðu smærri Evrópulanda innan og utan ESB og hugsanlega aðild Íslands og Noregs að sambandinu. Aðalerindi MacShane hingað er að funda með íslenskum stjórnvöldum og mun hann eiga fund með Valgerði Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í fjarveru Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra. MacShane er fyrsti ráðherra Bretlands sem kemur sérstaklega í heimsókn til Íslands síðan 1996. Fyrirlestur MacShanes er haldinn á vegum breska sendiráðsins í Reykjavík, utanríkisráðuneytisins og Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands. Að loknu erindi hans munu þær Sólveig Pétursdóttir, formaður Utanríkismálanefndar Alþingis, Jónína Bjartmarz varaformaður Utanríkismálanefndar Alþingis og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar, skiptast á skoðunum við MacShane um efni fyrirlestrarins. Fundarstjóri verður Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. MacShane hefur verið þingmaður á breska þinginu frá árinu 1994. Hann skrifar reglulega í dagblöð og stjórnmálarit í Bretlandi, frönsk, þýsk og bandarísk dagblöð og er að auki höfundur nokkurra bóka um alþjóðastjórnmál. Hann nam við Merton College í Oxford og er með PhD gráðu í alþjóðahagfræði frá London University. Dagskrá fyrirlestrarins á fimmtudaginn er svohljóðandi: 12.05 Ávarp: Alp Mehmet, breski sendiherrann á Íslandi 12.10 „Hin nýja Stjórnarskrá Evrópu - Álitamál og áhrif á EES löndin“: Dr. Denis MacShane, Evrópumálaráðherra Bretlands 12.50 Pallborðsumræður: Sólveig Pétursdóttir, formaður Utanríkismálanefndar Alþingis, Jónína Bjartmarz, varaformaður Utanríkismálanefndar Alþingis og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, varaformaður Samfylkingarinnar 13.30 Fundi slitið. Vefur Háskóla Íslands greinir frá.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×