Innlent

Þingflokksformenn sáttir

Þingflokksformenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins segjast vera sáttir við þá niðurstöðu sem liggi fyrir í fjölmiðlamálinu. Þeir segja þingmenn ánægða og einhuga um niðurstöðuna.  Formenn þingflokka stjórnarflokkanna segjast afskaplega sáttir við stöðuna í fjölmiðlamálinu, enda sé komið að því að hefja þverpólitíska vinnu við það. Hjálmar Árnason, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, undirstrikar að flokkurinn hafi alla tíð sagst vilja leysa málið. Nú sé komin lausn sem allir geti sætt sig við og þannig verði hægt að binda enda á þær deilur sem verið hafi um málið að undanförnu. Vegna endurtekinnar yfirlýsinga þingmanna Framsóknarflokksins í fjölmiðlamálinu um sátt sína með frumvarpið, þrátt fyrir að töluverðar breytingar hafi orðið á því frá því frumvarpið var fyrst lagt fram, spurði fréttamaður þingflokksformanninn hvað þurfi til svo þingmenn flokksins verði ósáttir. Hjálmar svaraði því til að hvert skref væri ákveðin sáttaleið og hvert skref væri tekið með von um að með því færðust menn nær „friðarhöfn“. Einar K. Guðfinnsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokks, segir að auðvitað hefðu þingmenn flokksins kosið að ná að ljúka þessari lagasetningu eins og rök stæðu til um að mikil og brýn nauðsyn á væri á. Þeir hefðu hins vegar metið málið þannig að skynsamlegast væri við þessar aðstæður að fresta lagasetningunni um sinn og skoða hvort hægt sé að ná breiðari samstöðu. Einar segir stjórnarandstöðuna hafa gefið fyrirheit um að hún vildi koma að verkinu og nú reyni á þau fyrirheit. 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×