Erlent

Ísraelsmenn treysta ekki ESB

Ísraelsmenn segjast ekki geta treyst Evrópusambandinu í friðarferlinu í Miðausturlöndum eftir að sambandið studdi ályktun gegn Ísrael á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Stjórnvöld í Ísrael funduðu með Javier Solana, utanríkisráðherra Evrópusambandsins, í morgun. Ísraelsmenn eru æfir út í Evrópusambandið fyrir að styðja við ályktun sem samþykkt var á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fyrradag sem segir að Ísraelsmenn skuli rífa niður öryggismúrinn sem ísraelski herinn hefur verið að byggja á Vesturbakkanum. Ísraelski utanríkisráðherrann, Silvan Shalom, sagði við sendinefnd fá Evrópusambandinu í morgun að hann væri ekki viss um að hann gæti treyst Evrópusambandinu lengur í tengslum við friðarferlið í Miðausturlöndum. Eftir fundinn var haldinn blaðamannafundur og þar var erfitt að fela þá miklu gjá sem myndast hefur milli Evrópu og Ísraels eftir kosninguna hjá Sameinuðu þjóðunum. Utanríkisráðherra Ísraels sagði að Evrópa hefði látið Palestínumenn ráðskast með sig og að Ísrael hefði orðið fyrir miklum vonbrigðum með Evrópusambandið. Hann sagði ennfremur að hann vissi að öll Evrópuríkin væru ekki á móti Ísrael. Javier Solana brást mjög illa við þessum orðum og undirstrikaði að ekkert evrópuríki væri á móti Ísrael heldur hefðu menn álitið sem svo að lega múrsins væri röng samkvæmt niðurstöðum alþjóðadómstóla. Javier Solana vék sér síðar að Jasser Arafat, forseta Palestínu og sagði að Evrópusambandið þyrfti að endurskoða stuðning sinn við forsetann. Hálfgerð stjórnarkreppa er í Palestínu um þessar mundir því enn er óljóst hvort forsætisráðherrann, Ahmed Qurie, haldi áfram störfum. Qurie vill að Arafat gefi eftir völd sín yfir palestínska hernum en Arafat hefur þvertekið fyrir það.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×