Innlent

Stjórnmálasamband við Sambíu

Ísland og Sambía hafa undirritað viljayfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna. Hjálmar W. Hannesson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, undirritaði yfirlýsinguna fyrir Íslands hönd í New York sl. föstudag. Sambía er í suðurhluta Afríku og með landamæri að Tansaníu, Malaví, Mósambík, Simbabve, Botsvana, Namibíu, Angóla og Kongó. Höfuðborgin heitir Lúsaka og er íbúafjöldi landsins tæplega ellefu milljónir manna, þar af búa um 45% íbúanna í þéttbýli. Sambía er einn stærsti framleiðandi kopars í heiminum en verðfall á honum og takmarkaðri möguleikar til vinnslu hans undanfarna áratugi hafa valdið niðursveiflu í efnahagslífinu. Vegna endurtekinna þurrka er Sambía háð þróunaraðstoð vestrænna ríkja. Landið hefur þó ríka möguleika til vatnsaflsvirkjana og vinnslu fleiri málmtegunda, sem hafa ekki verið nýttar hingað til, sem og demanta. Myndin er frá undirrituninni á föstudaginn. Frá vinstri: Helga Hauksdóttir sendiráðunautur, Hjálmar W. Hannesson sendiherra, Mwelwa C. Musambachine, fastafulltrúi Sambíu hjá Sþ og Bernard Mpundu, varafastafulltrúi Sambíu hjá Sþ.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×