Erlent

Arafat og Qureia sættast

Yasser Arafat, forseti Palestínu, og Ahmed Qureia, forsætisráðherra landsins, sættust í morgun á fundi í borginni Ramallah á Vesturbakkanum. Þar með lýkur tveggja vikna stjórnarkreppu í Palestínu. Forsætisráðherrann sagði af sér í kjölfar þess að Arafat skipaði frænda sinn sem yfirmann öryggissveita Palestínu. Qureia dró síðar afsögn sína til baka þegar Arafat neitaði að taka við henni. Sagðist Qureia þá vera tilbúinn til þess að gegna embættinu í einhvern tíma, svo lengi sem Arafat gæfi eftir völd sín í tengslum við öryggissveitirnar. Arafat neitaði í fyrstu og lengi vel var útlit fyrir að Qureia stæði við afsögn sína. Arafat hefur verið að gefa eftir í deilunni síðustu daga, stuðningur við hann á heimastjórnarsvæðunum hefur minnkað og mótmælin eftir að Arafat skipaði frænda sinn í embætti á sér engin fordæmi. Meira að segja meðlimir úr Fatah-hreyfingu Arafats tóku þátt í þeim. Nú hefur Arafat sagt að hann sé tilbúinn til að gefa eftir af sínum persónulegu völdum. Qureia vonast til þess að aukin völd til ríkisstjórnarinnar verði til þess að hægt sé að ráðast í umbætur er lúta að efnahagslegum þáttum. Hann vill einnig beita sér harðar í baráttunni gegn uppreisnarmönnum á heimastjórnarsvæðunum. Ísraelsher heldur uppi stöðugum árásum á heimastjórnarsvæðin. Tveir Palestínumenn létust í morgun þegar skothríð braust út milli ísraelska hersins og að því að þeir töldu liðsmanna Hamaz. Annar mannanna mun hafa klæðst fötum Hamazliða en ekki er vitað hvort seinni maðurinn var vígamaður. Fjórir óbreyttir borgarar særðust í átökunum, þ.á m. tólf ára drengur. Að sögn Ísraela komu þeir auga á uppreisnarmenn sem voru að koma fyrir eldflaug.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×