Innlent

Vill að Ísland gangi í ESB

Það er afar mikilvægt fyrir hin Norðurlöndin að Ísland og Noregur gangi í Evrópusambandið," sagði Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, í samtali við Fréttablaðið að loknum fundi forsætisráðherra Norðurlandanna í Sveinbjarnargerði í Eyjafirði í gær. "Þegar kemur að því að taka ákvarðanir innan ESB skiptir stærð landsins engu máli, heldur það hve margir þeirra sem taka þátt í ákvörðunarferlinu eru sama sinnis. Norðurlandaþjóðirnar eru á margan hátt líkar. Okkur er umhugað um jafnrétti kynjanna, umhverfismál og velferðarkerfið og við erum framfarasinnuð. Það er mikilvægt fyrir alla Evrópu að fleiri styðji þessa stefnu. Við þurfum á Íslendingum og Norðmönnum að halda í Evrópusambandinu," sagði Persson. Persson tók vel í hugmynd sem Össur Skarphéðinsson lagði fram á fundi formanna félaga norrænna jafnaðarmanna í gær, um að sérstakri fiskveiðistjórnun yrði komið á í Norður-Atlantshafi til verndar hagsmunum Íslendinga. "Við þurfum að láta reyna á það hvernig hugmyndinni verður tekið innan Evrópusambandsins. Við þurfum að kynna hana vel fyrir öðrum Evrópusambandsríkjum og leita eftir stuðningi við hana. Þetta er áræðin hugmynd, við erum ekki á móti þessu, en það verður ekki auðvelt að fá þetta í gegn," segir Persson. Spurður hversu mikil áhrif Svíþjóð, Danmörk og Finnland hafi innan Evrópusambandsins varðandi fiskveiðistjórnun segir Persson að þau hafi ekki verið meðal landa sem hafi haft þessi mál í forgrunni. "Við höfum þó töluverð áhrif því við eigum fjölda vina í Evrópusambandinu. Við höfum góð sambönd og við gætum sannfært marga um að standa að baki tillögu sem þessari," segir Persson.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×