Innlent

SUF vill efla hlut kvenna

Stjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir áhyggjum af versnandi stöðu kvenna innan Framsóknarflokksins. Í ályktun sem samþykkt var á fundi SUF í gær segir að brýnt sé að við val á forystumönnum flokksins sé gætt að því að hlutur kvenna sé eigi lakari en 40 % líkt og stefnumörkun í lögum flokksins geri ráð fyrir. Stjórn SUF segir í ályktun sinni að tölulegar upplýsingar sýni að frá árinu 1995 hafi konum í trúnaðarstörfum Framsóknarflokksins fækkað jafnt og þétt. Það sé sérstaklega bagalegt ef sá góði árangur sem áður hafði náðst innan flokksins sé hægt að glatast niður.  Þá segir að SUF hafi ekki farið varhluta af þessu og hafi hið sama gerst með trúnaðrastöður innan SUF og annarsstaðar í flokknum. "Konum hefur jafnt og þétt fækkað. Þróunin hefur verið sú að erfitt er að fá konur til að taka að sér störf innan ungliðahreyfingarinnar og endurnýjun kvenna því verið hægari en æskilegt væri. Þessu verður að breyta ef Framsóknarflokkurinn ætlar sér að vernda dýrmæta ímynd sína um jafnrétti og jöfn tækifæri kynjanna." Í ljósi þessarar bagalegu þróunar telur stjórn SUF brýnt að við val á forystumönnum flokksins sé gætt að því að hlutur kvenna sé eigi lakari en 40 % líkt og stefnumörkun í lögum flokksins gerir ráð fyrir. Mikilvægt er fyrir ungt fólk í pólitík að hafa fyrirmyndir sem það geti samsamað sig við og því nauðsynlegt skref í eflingu þátttöku kvenna í störfum SUF að tryggt sé að hlutur kvenna í forystusveit flokksins sé ekki lakari en karla.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×