Innlent

Misbeita ríkisvaldi vegna R-lista

Sveitarfélögin fá ekki auknar tekjur á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn og Reykjavíkurlistinn er við völd í Reykjavík. Þetta segir Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar. Hann segir fjölda fólks hafa kvartað yfir því að ríkisstjórnin fáist ekki í viðræður um verkefni í borginni af því að Reykjavíkurlistinn sé við völd. "Meint fjármálaóstjórn Reykjavíkurlistans hefur verið aðalstefið hjá sjálfstæðismönnum í minnihluta borgarstjórnar og á meðan svo er munu ráðherrar sjálfstæðismanna ekki hreyfa litla fingur til að auka tekjur sveitarfélaganna. Það gæti veikt málstað flokksbræðra þeirra í borginni." Þetta segir Stefán vera misbeitingu ríkisvaldsins. Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna fer fram næsta mánudag og er búist við því að þar verði hart deilt á ríkisstjórnina vegna tekjuskiptingar ríkis og sveitarfélaga. Í minnisblaði sem Þórólfur Árnason, borgarstjóri, sendi fjárlaganefnd Alþingis í haust, rekur hann þau atriðið sem að hans mati mættu betur fara í tekjuskiptingu ríkis og borgarinnar. Þar kemur fram að kennsla í grunnskólum Reykjavíkur hafi aukist um sem svarar tveimur árum vegna lengingar skóladags og skólaárs. Á meðan hafi ríkið sparað sér ríflega 700 milljónir króna á ári með því að láta grunnskólana taka að sér verkefni framhaldsskólans. Þá segir borgarstjóri að tilteknar ríkisstofnanir séu undanþegnar fasteignaskatti. Með því verði borgin af skatttekjum sem nemi tæpum hálfum milljarði króna frá ríkinu á ári. Húsaleigubætur hafi líka í auknum mæli lent á borginni eftir að ríkið hóf að greiða fasta árlega upphæð í stað ákveðins hlutfalls af bótunum eins og tíðkaðist áður. Útgjöld borgarinnar verði því 720 milljónir á þessu ári og hafa hækkað um sjötíu prósent frá árinu 2002. Borgarstjórinn telur einnig til skuldbindingar ríkisins vegna EES samningsins og segir þær hafa kostað borgina mikið fé. Að lokum telur borgarstjórinn upp ný lög um einkahlutafélög sem leiði til þess að sveitarfélögin verði af rúmum milljarði króna á ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×