Innlent

Leikskólagjöld hækki um 42 prósent

Gjaldskrá Leikskóla Reykjavíkur mun hækka um allt að 42 prósent samkvæmt tillögu sem leikskólaráð hefur samþykkt. Borgarráð frestaði afgreiðslu tillögunnar á fundi sínum í gær. Tillagan að gjaldskrárbreytingunni felur í sér að einn af þremur gjaldskrárflokkum verður felldur niður. Mun breytingin því einkum hafa áhrif á fólk í sambúð þar sem annað foreldrið er í námi og foreldra í sambúð þar sem annað foreldrið er öryrki. Samkvæmt núgildandi gjaldskrá greiða foreldrar þar sem annað er í námi 22.200 krónur á mánuði fyrir níu klukkustunda vistun. Ef breytingin verður samþykkt mun gjaldið hækka í 31.330 krónur fyrir þetta fólk. Gjald fyrir foreldra þar sem annað er öryrki mun hins vegar lækka úr 22.200 krónum á mánuði í 16.120 krónur. Í bókun R-listans með tillögunni segir að vegna mikilla breytinga á högum og umhverfi námsmanna frá því núverandi gjaldskrá var tekin í notkun sé nauðsynlegt að endurskoða hana. Helstu rök fyrir lægra gjaldi þegar annað foreldri var í námi hafi verið tekjutenging maka. Þannig hafi framfærsla námsmanna skerst ef tekjur fóru fram úr ákveðnu marki. Þannig er þessu ekki lengur farið, segir í bókuninni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×