Erlent

Sigur fyrir stjórnarandstöðuna

Stjórnarandstaðan í Úkraínu þykir hafa unnið táknrænan sigur í dag eftir að þjóðþingið ógilti forsetakosningarnar í landinu þar sem þær endurspegluðu ekki vilja kjósenda. Þingið lýsti yfir vantrausti á yfirkjörstjórn landsins. Á neyðarfundi þingsins var fjallað um leiðir til þess að koma í fyrir vaxandi ólgu í Úkraínu, en landið rambar á barmi borgarastyrjaldar, eftir að Viktor Janúkóvits, forsætisráðherra, sem er hliðhollur stjórnvöldum í Moskvu, var lýstur sigurvegari. Viktor Júsjenkó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sakar stjórnvöld um kosningasvindl og krefst þess að kosið verði aftur 12. desember næstkomandi, en hæstiréttur landsins tekur á mánudag fyrir fyrir kæru hans um meint kosningasvik. Þingið samþykkti einnig að lýsa vantausti á yfirkjörstjórnina, þar sem henni hefði mistekist að sinna lögformlegum skyldum sínum. Þingið, sem slíkt, hefur ekki vald til þess að ógilda kosningarnar, en með vantraustsyfirlýsingunni getur það haft pólitísk áhrif. Um hundrað þúsund stuðningsmenn Júsjenkós voru fyrir framan þinghúsið í Kænugarði, meðan þjóðþingið fundaði. Á sama tíma efndu stuðningsmenn Janúkóvits, forsætisráðherra, til mótmæla í austurhluta landsins. Úkraínska þingið gagnrýndi Leóníd Kútsma, fráfarandi forseta, harkalega og sagði stjórnvöld bera ábyrgð á því að almenningur hefði misst alla trú á stofnunum ríksins. Javier Solana, yfirmaður utanríkismála Evrópusambandsins, er meðal þeirra sem reynt hafa að miðla málum í Úkraínu. Hann segir að Júsjenko og Janukovits verði að vinna saman að því að koma málum í góðan farveg í Úkraínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×