Innlent

Breytir engu um vald ráðherra

"Það er algjörlega á hreinu að þótt staðan í Írak hafi verið rædd var stuðningur okkar við innrásina og vera okkar á listanum aldrei rætt í utanríkismálanefnd," segir Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, sem átti sæti í nefndinni á tímabilinu. "Ákvörðunin sem slík var ekki til staðar, né hafði verið boðað að hún væri í vændum," segir Steingrímur. Magnús Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sat í utanríkismálanefnd á þessum tíma. "Ég man ekki til þess að það hafi verið lagt fyrir utanríkismálanefnd hvort Íslendingar ættu að styðja innrásina í Írak, ég held að þetta hafi komið mjög snöggt upp," segir Magnús. Jónína Bjartmarz hefur sagt hið sama opinberlega. Aðspurður segir Magnús að ákvörðunin hafi heldur aldrei verið rædd í þingflokknum. Sigríður Anna Þórðardóttir var þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður nefndarinnar á umræddum tíma. Hún segist ekkert hafa um málið að segja. Björn Bjarnason sat fyrir Sjálfstæðisflokk í nefndinni. "Ég ætla ekki að taka þátt í þessum "leik" sem skiptir engu máli og breytir engu um vald ráðherra eða annarra og svara því ekki spurningum þínum um þetta mál," segir Björn. Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti sæti í nefndinni. "Ég tel að málefni Íraks hafi verið rædd á breiðum grundvelli í utanríkismálanefnd og á Alþingi og fyrir innrásina og á eftir. Ég tel að með þeim umræðum hafi þingskaparákvæði, þar sem kveður á um samráðsgildi við utanríkismálanefnd, verið fullnægt að öllu leyti." Spurður hvort hugsanlegur stuðningur Íslendinga við innrásina hafi verið ræddur segist hann ekki vilja fara ofan í það efnislega sem rætt var á fundunum. "Framsóknarmenn og sjálfstæðismenn geta haldið því fram í sífellu að Íraksmálin hafi verið rædd þennan vetur," segir Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar. "Þegar rætt var um málefni Íraks var það alltaf að frumkvæði stjórnarandstöðunnar, bæði í þinginu og í utanríkismálanefnd. Það fyrir liggur að ákvörðunin um að styðja innrásina var aldrei rædd í utanríkismálanefnd, enda hefur forsætisráðherra, þáverandi utanríkisráðherra, margsagt að hann teldi að ekki hafi verið þörf á því," segir Þórunn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×