Innlent

Vill ekki opinbera fundargerðir

Formaður utanríkismálanefndar Alþingis vill ekki að fundargerðir nefndarinnar verði gerðar opinberar. Hann ætlar að boða til fundar í nefndinni í næstu viku til að ræða hvort einhverjir nefndarmanna hafi rofið trúnað og lekið fundargerðum í fjölmiðla. Fréttablaðið rekur í grein í blaði dagsins hvað fram fór á fundum utanríkismálanefndar daga og vikur áður og eftir að Íslendingar lýstu yfir stuðningi sínum við innrás Bandaríkjamanna og Breta í Írak. Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar, vill ekki tjá sig um þessar upplýsingar sem Fréttablaðið virðist hafa komist yfir og þar með þann trúnaðarbrest sem orðið hefur í nefndinni, en samkvæmt þingskaparlögum eru nefndarmenn bundnir þagnarskyldu um þær upplýsingar sem þeir fá í nefndinni. Sólveig segir að ljóst sé að halda þurfi fund í nefndinni og ræða um meðferð trúnaðarupplýsinga þar. Hún stefni að því að halda þann fund fljótlega í næstu viku. Aðspurð hvort hún telji að gera eigi fundargerðir og gögn, sem tengjast veru Íslands á lista hinna staðföstu þjóða, opinber segir Sólveig að það eigi ekki að gera. Hún bendir á að áratugalöng hefð sé fyrir því að farið sé með allt sem rætt sé í utanríkismálanefnd og fundargerðir sem trúnaðarmál. Sólveig segir það engu skipta að útgáfur manna á því sem fram fór í nefndinni séu orðnar margar og fjölbreyttar og að menn hafi verið sakaðir um að vera margsaga um aðdraganda málsins. Það réttlæti ekki að trúnaði verði létt af fundargerðum. Hún segir mörg mikilvæg og viðkvæm mál rædd í utanríkismálanefnd og mikilvægt sé að trúnaður sé virtur. Hún segir einnig að það sé alvarlegt mál ef trúnaðarskylda hafi verið brotin og því telji hún að nefndin verði að funda þar sem þessi mál verði rædd sérstaklega.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×