Sport

Ungu strákarnir gefa nýja sýn

Ólafur Stefánsson er kominn aftur í íslenska landsliðið en hann lék ekki með á World Cup í Svíþjóð og svo gældi hann reyndar við að leggja landsliðsskóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í sumar. Þessi besti handknattleiksmaður þjóðarinnar hefur lagt vonbrigðin á ÓL á hilluna og það leynir sér ekki að honum líður mikið mun betur í dag. "Mér líður mjög vel. Ég hef reyndar verið að glíma við smá meiðsli í nára en það verður vonandi í lagi. Annars er þetta bara gaman og það er fín stemning í þessum hópi enda margir léttir og skemmtilegir strákar í honum," sagði Ólafur sem hefur augljóslega gaman af ungu strákunum. "Þeir gefa nýja sýn á lífið og maður heldur aðeins í þá strauma sem eru í gangi á þessum aldri. Allar þeirra væntingar og annað." Ólafur var óvenju yfirlýsingaglaður á síðasta ári og fór til að mynda ekki leynt með þann draum sinn að hann ætlaði að vinna til verðlauna á Ólympíuleikunum. Það muna allir hvernig sá draumur fór. Markmiðin eru lágstemmdari að þessu sinni. "Það er bara að hafa gaman af þessu og standa sig vel. Gera gott mót eins og maður segir stundum. Gott mót er að vera númer eitt eða tvö í riðlinum og svo er bara að sjá til með framhaldið. Við eigum að geta farið í hvern leik til þess að vinna hann." Ólafur tók sig vel út með heyrnatól á höfðinu eftir æfingu en hann var að hlusta á nýja diskinn hans Mugison og var nokkuð sátttur. "Hann er þrælgóður og aldrei að vita nema maður spili hann fyrir leiki," sagði Ólafur léttur í bragði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×