Innlent

Fátækt nýja ógnin

Hagsmunum Norðurlandaþjóðanna er best borgið innan alþjóðlegra stofnana líkt og Sameinuðu þjóðanna, NATO og Evrópusambandsins. Þetta sagði Thorvald Stoltenberg, fyrrum utanríkisráðherra Noregs og forseti norska Rauða Krossins, á málþingi framtíðarhóps Samfylkingar í gær. Hann sagði einnig að reynsla Norðmanna hafi sýnt að það geti komið sér betur að lítið fari fyrir utanríkisstefnu lítilla þjóða, sérstaklega í deilumálum sem fara hátt. Þegar þannig sé komið fyrir treysti deiluaðilar landinu frekar til að taka þátt í sáttaumleitunum, eins og sést hafi þegar Norðmenn tóku að sér að bera skilaboð á milli Bandaríkjamanna og Víetnama í Víetnamstríðinu. Stoltenberg segir að heimurinn sé sífellt að minnka, meðal annars vegna fjölgunar ferðalaga til fjarlægra heimshluta og hann vonaðist til að með því færum við líka að sjá hinar daglegu hamfarir, sem við verðum ekki vör við í fjölmiðlum daglega. Slíkar hamfarir væru mikill fjöldi fólks sem deyr daglega úr hungri, vegna eyðni, úr veikindum eða vegna fátæktar. Áður hafi óvinurinn verið hinum megin við landamærin sem hægt hafi verið að mæta með skriðdrekum. Nú sé ógnin við heimsfriðinn fátækt, sem birtist meðal annars í rússneskum berklum. Slíkar ógnir stoppi ekki við landamæri. Ógnin vegna fátæktar komi einnig vegna þess að fólk í fátækum löndum sér velmegunina á Vesturlöndum og vill hlutdeild af þeirri velmegun. Þessar ógnir séu nýjar, hluti af nýrri heimsskipan og því þurfi að huga að félags- og efnahagslegum þáttum þegar öryggisstefna er mynduð



Fleiri fréttir

Sjá meira


×