Innlent

Rétt að fá álit nefndar

Sigurður Líndal lagaprófessor segir að sér finnist að rétt hefði verið að fá álit utanríkismálanefndar vegna Íraksmálsins en vill ekkert fullyrða um lögbrot í því sambandi. Eiríkur Tómasson lagaprófessor segir í lögfræðiáliti að forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafi verið í fullum rétti til þess að taka einir ákvörðun um stuðning við innrásina í Írak. Sigurður Líndal lagaprófessor sagði í samtali við fréttastofuna, að hann hefði ekki kynnt sér málið jafn nákvæmlega og Eiríkur og hefði því ekki myndað sér jafn ákveðna skoðun. Sigurði finnst málavextir fremur óljósir og svörin mörg hver loðin. Ekki síst finnst honum óljós hver tilgangurinn hafi verið með innrásinni, hvort hann hafi verið að koma Saddam Hussein frá völdum, sem nú sé lögð mikil áhersla á, eða hvort ætlunin hafi verið að finna gereyðingarvopn, sem hafi verið aðaláhersluatriðið í upphafi. Sigurður segir að sjálfsagt megi deila um hvað séu meiri háttar utanríkismál. Sér finnist hins vegar að í þessu tilviki hefði utanríkismálanefnd átt að njóta vafans, ef einhver væri, og það hefði átt að fá formlegt álit hennar áður en endanleg ákvörðun um stuðning var tekin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×