Innlent

Sofið á verðinum?

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, telur að stjórnvöld hafi sofið á verðinum og ekki sinnt ítrekuðum kröfum verkalýðshreyfingar og stjórnarandstöðu um að grípa í taumana og setja lög og reglur um starfsmannaleigur meðan alþjóðleg stórfyrirtæki á borð við Impregilo hafi stundað félagsleg undirboð og grafið undan samfélagsgerðinni. Þetta kom fram í utandagskrárumræðu á Alþingi í gær um félagsleg undirboð á vinnumarkaði en Össur var málshefjandi þeirrar umræðu. Össur gagnrýndi einnig stjórnvöld fyrir að hafa ekki tryggt að lögum um iðnréttindi væri fylgt við Kárahnjúka þar sem óbreyttir starfsmenn gengju í störf iðnaðarmanna svo að hundruðum skipti. Þá hefðu ekki enn tryggt að skattskylda væri hér á landi. Aðstæður hér væru gróðrarstía fyrir starfsmannaleigur. Heilu íbúðarblokkirnar væru byggðar með því að greiða fimmtung af eðlilegum kostnaði. Miskinn væri margs konar, til dæmis rýrari samkeppnishæfi starfsmanna og fyrirtækja auk þess sem samfélagið tapaði skatttekjum og ætti erfiðara með að standa undir velferðarkerfinu. Árni Magnússon félagsmálaráðherra svaraði því til að það væri áhyggjuefni ef ekki væru greidd laun í samræmi við kjarasamninga. Lög eigi að tryggja að það sé gert óháð þjóðerni. Deilan geti farið fyrir félagsdóm og komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að samningur hafi verið brotin sé undanþága til vinnustöðvunar. Ráðherra vill viðhalda því vinnumarkaðskerfi sem hér er og láta reyna á málið til þrautar innan þess en mælir gegn opinberri eftirlitsnefnd. Starfshópur hafi fengið það hlutverk að fjalla um stöðu erlendra starfsmannaleiga og hann líti meðal annars til annarra landa.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×