Erlent

Skref í friðarátt

Leiðtogafundur verður haldinn fyrir botni Miðjarðarhafs eftir hálfan mánuð. Þá hittast Mahmoud Abbas og Ariel Sharon til friðarviðræðna. Friðarhorfurnar í Miðausturlöndum hafa vænkast mjög undanfarna daga og virðist sem samskipti yfirvalda séu betri en hefur verið um langt skeið. Fulltrúar palestínskra og ísraelskra yfirvalda sitja nú á fundi og skipuleggja leiðtogafund Mahmoud Abbas, forseta Palestínu, og Ariels Sharons, forsætisráðherra Ísraels, en að honum er stefnt um miðjan febrúar. Þetta er stórt skref í friðarátt og í fyrsta sinn sem fundur af þessu tagi er haldinn í meira en eitt og hálft ár. Embættismenn ræða einnig hvernig skipuleggja eigi brotthvarf ísraelskra hersveita frá fimm borgum á Vesturbakkanum. Fyrstu skrefin verða stigin á miðvikudaginn þegar palestínskar öryggissveitir halda út á götur fjögurra bæja á Vesturbakkanum. Í kjölfarið er stefnt að því að ísraelskar sveitir hverfi þaðan. Bandaríska leyniþjónustan CIA mun hafa það hlutverk að koma upplýsingum á milli palestínskra og ísraelskra öryggisyfirvalda og samhæfa starf þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×