Sport

Einar Hólmgeirsson Hofsósingur

Ættir Einars Hólmgeirssonar handboltalandsliðsmanns eru skilmerkilega raktar á heimasíðu sveitarfélagsins Skagafjarðar, skagafjordur.is. Tilefnið eru orð Einars í Mogganum á dögunum, þar sem hann sagðist vera harður af sér því hann væri Skagfirðingur. Skagafjordur.is upplýsir að Einar sé frá Hofsósi, "sonur Hólmgeirs Einarssonar og frændi Halla á Enni sem sjálfur er formaður UMSS og íþróttaáhuginn því augljóslega í ættinni". Ekki er látið þar við sitja heldur haldið áfram. "Hólmgeir, pabbi Einars, er sonur Einars Jóhannssonar sem kenndur var við Berlín í Hofsósi og Ernu Geirmundardóttur sem er ættuð frá Grafargerði við Hofsós. Móðir Einars heitir hinsvegar Þórleif og er dóttir Friðriks Antonssonar og Guðrúnar Þórðardóttur á Höfða. Það kemur því engum á óvart sem til ættanna þekkja að drengurinn sé harður af sér." Botn er svo sleginn í fréttina með sárum með sönnum staðreyndum úr Skagafirði. "Skagfirðingar hafa reyndar ekki átt margar súperstjörnur í handboltanum, enda hefur þeirri íþróttagrein ekki verið haldið hátt á lofti hér um slóðir síðan UMSS átti þokkalegt kvennahandboltalið á milli 1950 og 1960."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×