Innlent

Vilja ógilda aðalfund Freyju

Þess hefur verið krafist að aðalfundur Freyju, félags framsóknarkvenna í Kópavogi, verði úrskurðaður ógildur. Fjölskylda Árna Magnússonar félagsmálaráðherra og Páls, bróður hans, er sögð hafa fjölmennt á fundinn. Fjörutíu og þrjár nýjar konur létu skrá sig í Freyju daginn sem aðalfundurinn var haldinn og lögðu þær hreinlega undir sig fundinn. Málinu hefur nú verið skotið til laganefndar Framsóknarflokksins sem á að skera úr um hvort fundurinn hafi verið löglegur. Bent er á að samkvæmt lögum Freyju séu skilyrði um búsetu í Kópavogi sem konurnar fjörutíu og þrjár uppfylli ekki allar. Einnig þurfi að samþykkja nýja félaga á aðalfundi sem ekki hafi verið gert. Því er þess krafist að fundurinn verði ógiltur. Framsóknarfólk sem fréttastofan ræddi við í morgun þykist sjá þarna herbragð þeirra bræðra Árna Magnússonar félagsmálaráðherra og Páls, bróður hans, sem er varaþingmaður. Með því að yfirtaka bæði Freyju og Félag ungra framsóknarmanna í Kópavogi opnist þeim leið til þess að koma Páli í bæjarstjórastólinn. Sagt er að margir úr fjölskyldu þeirra bræðra hafi verið í hópi kvennanna fjörutíu og þriggja. Þar hafi meðal annars verið eiginkonur þeirra, eiginkona Sigurjóns Arnar Þórssonar, aðstoðarmanns Árna, dóttir Árna og að minnsta kosti ein systir þeirra bræðra. Þetta er talið til marks um að þarna hafi hreinlega verið gerð hallarbylting. Búist er við úrskurði laganefndar í þessari viku.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×