Innlent

Guðni telur ekki sótt að sér

Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir átökin í flokknum að undanförnu óheppileg félagslega. Hann telur þetta þó ekki vera ráðabrugg til að steypa sér af stóli. Átakafundur í Félagi framsóknarkvenna í Kópavogi fyrir helgi þar sem formaður Landssambands framsóknarkvenna var felldur úr stjórn hefur vakið upp spurningar um valdabaráttu innan flokksins. Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, segir heilmikið líf og starf í flokknum. Honum finnist hins vegar þau atvik sem komið hafi upp upp á síðkastið vera félagslega óheppileg og þau snúist um innansveitarkróniku. Kenningar eru hins vegar uppi um að uppákoman í Kópavogi endurspegli dýpri átök um völd sem snúist um að styrkja menn fyrir kosningar um æðstu stöður í flokknum. Ætlunin sé jafnvel að sækja að varaformanni flokksins. Guðni segist ekki sjá það fyrir sér. Hann sitji á friðarstóli og átökin snúist ekkert um varaformennsku í flokknum heldur sé þetta innansveitarkrónika í Kópavogi. Hann sé því sallarólegur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×