Innlent

Harma orð Sivjar

Átök í Freyju, félagi framsóknarkvenna í Kópavogi, halda áfram og í yfirlýsingu frá hópi kvenna sem stóð að myndun nýrrar stjórnar í félaginu á fimmtudag eru ummæli Sivjar Friðleifsdóttur, ritara Framsóknarflokksins, eftir fundinn sérstaklega hörmuð. Þá er einkum átt við þau orð Sivjar að nýskráning kvennanna og þáttur þeirra í fundinum hafi verið tilkominn vegna undirgefni við ákveðna karlmenn í flokknum. Það sé hrein móðgun og með ólíkindum að slíkt komi frá forystukonu í stjórnmálum. Frábiðja konurnar sér að vera dregnar inn í átök sem virðast vera á milli forystufólks í Framsóknarflokknum. Þær benda einnig á að Sif hafi mætt seint á fundinn, hún hafi haft sig mjög í frammi en sé ekki einu sinni félagi í Freyju. Loks segjast konurnar hafa leitað sátta á fundinum með því að styðja sitjandi formann og því sé það þeim mikil vonbrigði að hún skuli ganga fram í fjölmiðlum og beina spjótum sínum að þeim, nýjum félögum í Freyju, sem hafi kosið hana til formennsku. Þær skora á formanninn að leita sátta í félaginu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×