Innlent

Flestir trúa á formannsskipti

Mikill meirihluti landsmanna telur að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir verði næsti formaður Samfylkingarinnar, samkvæmt skoðunakönnun sem Fréttablaðið lét gera. Af þeim sem tóku afstöðu til spurningarinnar telja rúm 63 prósent að Ingibjörg Sólrún verði næsti formaður, en rúm 32 prósent telja að Össur Skarphéðinsson verði formaður Samfylkingarinnar. Rúm fjögur prósent telja að einhver annar verði formaður. Það eru því um helmingi fleiri sem telja að formannsskipti fari fram í Samfylkingunni í vor, en þeir sem telja að Össur verði áfram formaður. Mun fleiri konur telja að Ingibjörg verði næsti formaður flokksins, eða 58,3 prósent, á meðan 49,3 prósent karla telja að Ingibjörg verði formaður. Tæplega 24 prósent kvenna telja að Össur haldi áfram formennsku í flokknum, en 31 prósent karla. Þá telja aðeins fleiri af landsbyggðinni að Ingibjörg verði formaður, eða rúm 57 prósent á móti tæpum 52 prósentum á höfuðborgarsvæðinu. Tæp 30 prósent af landsbyggðinni telja að Össur haldi velli sem formaður, en 26 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Aðeins fleiri eru óákveðnir á höfuðborgarsvæðinu. Ef einungis er tekið tillit til þeirra sem segjast myndu kjósa Samfylkinguna verður niðurstaðan enn meira afgerandi. Það verður þó að hafa í huga að slíkar athuganir eru einungis vísbendingar um hvernig stuðningsmenn Samfylkingar telja að formannskjörið fari, þar sem stuðningsmenn Samfylkingar eru einungis um 160 og niðurstaðan því alls ekki marktæk. Af þeim telja þó 72 prósent að Ingibjörg Sólrún verði næsti formaður, en 20 prósent telja að Össur haldi áfram formennsku. Þetta bendir til að fleiri utan Samfylkingar telji að Össur haldi áfram að vera formaður, en innan flokksins. Ef einungis er tekið tillit til þeirra sem taka afstöðu telja tæp 77 prósent að Ingibjörg Sólrún taki við formennsku, en rúm 21 prósent telja að Össur haldi áfram. Tæp tvö prósent telja að einhver annar muni taka við formennsku í flokknum nú í vor. Hringt var í 800 manns 1. febrúar, sem skiptust jafnt milli kynja og hlutfallslega eftir kjördæmum. Spurt var: Hver telur þú að verði formaður Samfylkingarinnar að loknu flokksþingi. 81,6 prósent tóku afstöðu til spurningarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×