Innlent

Segir könnun Gallups marktækari

Fylgi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar er nær hnífjafnt ef marka má könnun Fréttablaðsins í dag. Vinsældir Framsóknarflokksins hafa hins vegar sjaldan verið minni en varaformaður hans telur könnun Gallups marktækari. 800 manns voru spurðir en aðeins liðlega helmingur, eða 56 prósent, tók afstöðu. Samkvæmt könnuninni fengi Samfylkingin 35,2 prósent en fékk tæpt 31 í kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn fengi 35 prósent en fékk tæp 34 í kosningum. Vinstri - grænir fengju 14,4 prósent en fengu tæp níu í kosningum. Framsóknarflokkurinn fengi átta prósent en fékk tæp 18 prósent þegar síðast var kosið og Frjálslyndi flokkurinn fær 6,7 prósent en fékk 7,4 í síðustu kosningum. Ríkisstjórnin hefur ekki meirihluta samkvæmt könnuninni, fengi 43 prósent atkvæða og 28 þingmenn. Framsóknarflokkurinn fengi fimm en Sjálfstæðisflokkurinn tuttugu og þrjá. En hvað veldur þessu fylgishruni að mati varaformannsins Guðna Ágústssonar? Guðni segir að í könnun Gallups komi allt annað fram og hann veltir því fyrir sér á hvorri könnuninni sé mark takandi. Hann segist hallast að því að könnun Gallups sé marktækari þar sem að sagt sé að menn eigi að fást við það sem þeir kunni. Gallup kunni að gera skoðanakannanir. Hann ætli ekki að velta sér upp úr skoðanakönnun Fréttablaðsins þar sem haft sé eftir prófessori að aðeins eitt stingi í stúf miðað við kannanir síðustu vikna og það sé staða Framsóknarflokksins. Guðni telur að Framsóknarflokkurinn hafi sterka málefnalega stöðu og framsóknarmenn muni þjappa sínu liði saman og eiga mjög sterkt flokksþing í lok febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×