Innlent

Heilræði til Halldórs

Þegar Steingrímur Hermannsson gegndi embætti forsætisráðherra á árum áður var hann jafnan sá stjórnmálamaður sem flestir sögðust bera traust til. Þannig var oft sagt um Steingrím að hann væri vinsæll og vissi af því. Steingrímur er ekki í vafa um hver lykillinn að vinsældum sínum hafi verið. "Að vera opinskár og í góðu sambandi við fólkið, vera heiðarlegur eins og frekast er kostur og gera það sem þú telur rétt. Viðurkenna mistök ef þú gerir mistök, það gera allir mistök." Steingrími er ekki skemmt yfir þeirri stöðu sem eftirmaður hans, Halldór Ásgrímsson, er kominn í. "Mér þykir leitt að sjá það. Ég held að hann þurfi að taka sig á og fara að þessum ráðleggingum sem ég var að gefa." Til áhersluauka bendir Steingrímur á nokkur atriði sem hann hugði sérstaklega að í embættistíð sinni. "Ég gætti þess alltaf að vera til viðtals við flokksmenn og utanflokksmenn og fjölmiðla, ég held að það hafi reynst mér mjög happadrjúgt og ég held að það sé ákaflega mikilvægt líka að hlusta á öndverðar skoðanir. Mér fannst ég hafa mikið gagn af því."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×