Erlent

Evrópa vinur Bandaríkjanna

„Það er tímabært að binda enda á deilur fortíðar,“ sagði Condoleeza Rice í París í dag og kvað engan vafa lengur leika á því í Bandaríkjastjórn að Evrópa væri vinur en ekki andstæðingur.  Ræðu Rice í París var beðið með nokkurri eftirvæntingu. Vitað var að þar hyggðist hún leggja línu Bandaríkjastjórnar í samskiptum við Evrópu á næstunni. Samskipti Evrópuríkja og Bandaríkjanna hafa verið nokkuð stirð síðan George Bush flutti inn í Hvíta húsið fyrir rúmum fjórum árum og ekki batnaði ástandið þegar stríðið í Írak hófst. En nú kveður við nýjan tón. Rice segir tímabært að ljúka deilum og hefja nýjan kafla í samskiptum á Atlantshafsásnum. Ef eftirsókn eftir frelsi á heimsvísu sé gerð að meginreglu 21. aldarinnar sé hægt að ná sögulegum árangri í þágu réttlætis og hagsældar, frelsis og friðar. „En verkefni á heimsvísu krefst samvinnu á heimsvísu. Við skulum því margfalda sameiginlega viðleitni okkar,“ segir Rice. „Þess vegna fagna Bandaríkjamenn vaxandi einingu Evrópuríkja. Bandaríkin hafa ekkert nema ávinning af því að hafa sterkari Evrópu sem bandamann í að byggja upp öruggari og betri heim.“ Ferð Rice er einnig frumsýning og er til þess ætluð að undirstrika þann mun sem er á henni og forveranum Colin Powell. Ekki er nóg með að Rice njóti trausts Bush forseta, sé vinur hans og náinn ráðgjafi, ólíkt Powell, heldur ætlar hún sér líka að ferðast meira en hann en Powell er meðal þeirra bandarísku utanríkisráðherra sem minnst ferðuðust á meðan hann var í embætti.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×