Innlent

70 prósent telja Ingibjörgu hæfari

Sjötíu prósent samfylkingarfólks telja Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur hæfari en Össur Skarphéðinsson, til að gegna formennsku í Samfylkingunni. Sextíu prósent sjálfstæðismanna telja Össur hins vegar hæfari til starfans. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem Gallup gerði fyrir Mannlíf í janúar og birtist í nýjasta tölublaði þess. Þátttakendur í könnuninni voru rúmlega 800, en alls voru 1288 manns beðnir um að taka þátt. Spurt var: Hvort telur þú að Ingibjörg Sólrúnu Gísladóttir eða Össur skarphéðinsson sé hæfari til að gegna formennsku í Samfylkingunni? 65 prósent þeirra sem gáfu upp afstöðu sína sögðust telja Ingibjörgu hæfari til að gegna formannsembættinu en 35 prósent töldu Össur hæfari. Þegar afstaða þeirra sem kjósa Samfylkinguna er skoðuð kemur í ljós að heil 70 prósent telja Ingibjörgu hæfari. Átján prósent þeirra telja Össur hæfari og tólf prósent segjast hlutlaus. Sé aðeins litið til samfylkingarfólks sem gerir upp á milli formannsframbjóðendanna eykst hlutfall þeirra sem velja Ingibjörgu upp í 80 prósent. Athygli vekur hins vegar að á meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins telja sex af hverjum tíu Össur hæfari en Ingibjörgu Sólrúnu til að leiða Samfylkinguna og 53 prósent Framsóknarmanna eru einnig á þeirri skoðun. Þrír fjórðu hlutar kjósenda Vinstri - grænna telja Ingibjörgu hins vegar hæfari en Össur. Afgerandi meirihluti kvenna telur Ingibjörgu hæfari, eða um 72 prósent. Munurinn er nokkuð minni meðal karla sem svöruðu könnuninni. Þeirra á meðal telja tæplega sex af hverjum tíu að Ingibjörg sé hæfari en rúmlega 40 prósent karlmanna hallast frekar að Össuri.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×