Erlent

Palestínumenn hætti árásum

Forseti Palestínumanna krafðist þess í dag að herskáar hreyfingar Palestínumanna hættu strax öllum árásum á Ísraela. Forsetinn hefur rekið níu foringja úr öryggissveitum sínum. Samtök eins og Hamas hafa lýst því yfir að þau telji sig ekki bundin af vopnahléinu sem þeir Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, og Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, tilkynntu um í síðustu viku. Í gær létu Hamas eldflaugum rigna yfir ísraelska landnemabyggð og var þá vopnahléið strax í hættu. Abbas brást hart við, rak æðsta yfirmann öryggissveita sinna úr starfi og átta foringja aðra. Forsetinn fór svo til Gaza í gær til viðræðna við herskáa leiðtoga skæruliðahreyfinga. Þar krafðist hann þess að sér yrði hlýtt og sagði að öryggissveitirnar yrðu sendar gegn þeim sem ryfu vopnahléið. Líklega er það nokkuð umhugsunarefni fyrir hina herskáu foringja því Abbas og öryggissveitirnar vita nákvæmlega hverjir þeir eru og hvar þeir eru. Miðstjórn Fatah, hreyfingar forseta, lýsti um leið yfir neyðarástandi í öryggissveitunum, sem færir þeim meiri völd, til þess að koma í veg fyrir ofbeldisverk. Ísraelar hrósuðu Abbas fyrir skjót viðbrögð en vöruðu jafnframt við því að þolinmæði þeirra væri takmörkuð og þeir myndu taka málin í sínar eigin hendur, ef forsetanum tækist ekki fljótlega að stilla til friðar. Þetta er eiginlega dálítið kaldhæðnislegt. Ísraelar hafa jú haft málin í sínum höndum í heil fjögur ár, án þess að geta stillt til friðar. Það væri kannski hægt að gefa palestínska forsetanum nokkra daga í viðbót.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×