Innlent

Gríðarleg þýðing samgöngubótanna

Fyrirhugaðar samgöngubætur á Vestfjörðum hafa gríðarlega þýðingu fyrir byggð í fjórðungnum, að mati Einars K. Guðfinnssonar, þingmanns Norðvesturkjördæmis. Samgönguráðherra vonast til þess að innan tveggja ára verði hafist handa við að þvera þrjá firði á sunnanverðum Vestfjörðum og innan sex ára verði byrjað að bora jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Með þessum framkvæmdum má ná allt að fimmtíu kílómetra styttingu þjóðvegarins milli Ísafjarðar og Reykjavíkur. Sá þingmaður sem lengst hefur verið fulltrúi Vestfirðinga á þingi er Einar K. Guðfinnsson. Hann segir þetta hafa ómetanlega þýðingum eins og margoft hafi sýnt sig þegar byggðir hafi verið  tengdar og leiðir styttar. Sú stefnumörkun þingmanna Vestfjarða á sínum tíma að leggja áherslu á uppbyggingu Djúpvegar varð til þess að suðurleiðin milli Vatnsfjarðar og Reykhólasveitar var látin bíða sem margir telja að hafi bitnað á byggðaþróun á sunnanverðum Vestfjörðum. Reynt var að bæta úr stöðu þeirra byggða með Breiðafjarðarferjunni Baldri.  Spurður hver gætu orðið áhrif áformaðra vegarbóta segir Einar að það sem sé næst okkur í tíma, þveranirnar á Gufufirði og Djúpafirði ef af verður, muni hafa gífurleg áhrif á byggð og atvinnulíf á sunnanverðum Vestfjörðum því þjóðbrautin til höfuðborgarsvæðisins verði þannig orðin mjög stutt og auðfarin.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×