Innlent

Farið að kostunarreglum

Kolbrún Halldórsdóttir alþingiskona hefur lagt fram fyrirspurn til menntamálaráðherra á Alþingi um kostun dagskrárliða í útvarpi og sjónvarpi. Kolbrún vill fá að vita hvernig stjórnvöld fylgja því eftir að farið sé að kostunarreglum laga, hve stór hluti auglýsingatekna Ríkisútvarpsins fáist með kostun og hvernig hlutfallið hafi þróast síðustu tíu ár. Hún spyr líka hvort ráðherra telji ástæðu til að endurskoða reglur um kostun. "Mér hefur fundist vanta greinarmun á því hvað er auglýsing og hvað er kostun. Það er ekki farið eftir laganna hljóðan. Núorðið er enginn munur gerður á því hvernig kostunaraðili er kynntur og hvernig sama fyrirtæki auglýsir sig," segir Kolbrún. "Mér finnst skipta máli að fólk viti að það er að horfa á auglýsingu. Samkvæmt lögum má bara nefna það að viðkomandi hafi verið kostunaraðili í þætti eða dagskrárþætti. Hann má ekki vera með auglýsingu um leið."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×