Innlent

Rætt um endurkomu Kristins

Stjórn þingflokks Framsóknarflokksins hefur átt í viðræðum við Kristin H. Gunnarsson að undanförnu um að hann endurheimti fyrri stöðu í nefndum Alþingis. Búist er við að það dragi til tíðinda á sérstökum þingflokksfundi í kvöld. Formaður þingflokksins segir þó eingöngu um reglubundinn kvöldverðarfund þingflokksins að ræða. Stjórn þingflokks Framsóknarflokksins hefur undanfarið átt í viðræðum við Kristin H. Gunnarsson um stöðu hans innan flokksins. Þetta er í framhaldi af ályktun kjördæmisþings framsóknarmanna þann 7. nóvember þar sem þingflokkurinn var hvattur til að leysa þann ágreining sem uppi hefði verið þannig að allir þingmenn flokksins hefðu eðlilega aðstöðu til starfa. Þingmenn kjördæmisins voru jafnframt hvattir til að taka höndum saman kjördæminu til heilla. Kristinn H Gunnarsson staðfesti í samtali við fréttastofu að rætt hefði verið um að undanförnu að hann endurheimti sína fyrri stöðu innan flokksins. Hjálmar Árnason, formaður þingflokks Framsóknarflokksins, vildi hins vegar ekki staðfesta að málefni Kristins H. Gunnarssonar yrðu sérstaklega til umræðu á fundinum í kvöld. Hann sagði að öll málefni þingflokksins yrðu rædd. Allir þingmenn flokksins hefðu verið að ræða saman eins og þeir gerðu reglulega og væri nauðsynlegt þegar fólk ynni saman. Aðpurður hvort búast mætti við að Kristinn endurheimti stöðu sína í nefndum fyrir Framsóknarflokkinn ítrekaði Hjálmar að framsóknarmenn hefðu rætt saman og svo væri bara að sjá hvað framtíðin bæri í skauti sér.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×