Innlent

Fischer fær ekki ríkisborgararétt

Á fundi allsherjarnefndar í gærmorgun var ákveðið að mæla ekki með því við Alþingi að bandaríska skákmanninum Bobby Fischer yrði veittur íslenskur ríkisborgararéttur að svo stöddu. Bjarni Benediktsson, formaður nefndarinnar, sagði að íslensk stjórnvöld hefðu þegar greitt leið Fischers til landsins með því að veita honum landvistarleyfi. Ekki væri þó ástæða til að veita honum ríkisborgararétt eins og málum væri nú komið enda fælust í því afskipti af deilum hans við stjórnvöld annars ríkis. Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem sæti á í allsherjarnefnd, sagðist vonsvikin yfir niðurstöðunni. "Við lögðum áherslu á að gefin yrðu út ferðaskilríki í samræmi við dvalarleyfi sem búið er að segja já við. Það skiptir meginmáli að það verði gert og stendur það upp á Útlendingastofnun," sagði hún. "Við munum bíða eftir því hverju það skilar en ef það dugir ekki til verður málið tekið upp að nýju í vor um leið og aðrar umsóknir um ríkisborgararétt verða teknar fyrir í nefndinni," sagði Guðrún.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×