Erlent

500 palestínskum föngum sleppt

Fimmhundruð palestínskum föngum sem verið hafa í haldi í Ísrael verður sleppt klukkan átta að íslenskum tíma í dag. Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, segir þetta gert til þess að koma enn frekari skriði á friðarferlið sem tekið hefur mikinn kipp undanfarið. Frelsun fanganna er mjög mikilvæg fyrir Mahmoud Abbas, nýkjörinn leiðtoga Palestínu, þar sem hún er grundvallarforsenda þess að honum takist að friðþægja herskáa Palestínumenn. Margir Palestínumenn eru þó á því að sleppa þurfi margfalt fleiri föngum til að herskáir hópar samþykki vopnahléð sem Abbas gekk frá við Sharon. Um átta þúsund palestínskir fangar eru í fangelsum í Ísrael. Í gær samþykkti Fatah-hreyfingin í Palestínu nýja ríkisstjórn Abbas og þykir það einnig mikill sigur fyrir hinn nýkjörna leiðtoga. Töluverðan tíma tók að fá samþykki Fatah fyrir stjórninni vegna mótmæla forsætisráðherrans, Ahmed Quarei. Í ríkisstjórninni eru allir helstu bandamenn Abbas og það auðveldar honum mjög að ná fram stefnumálum sínum að stjórnin hafi verið samþykkt. Friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs miðar nú mjög vel og í gær samþykkti þingið í Ísrael tillögu Ariels Sharons um brottflutning frá herteknum svæðum Palestínumanna sem verið hefur eitt af stærstu deilumálum Ísraels og Palestínu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×