Innlent

Logandi átök um Landsvirkjun

Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra mátti sæta harðri gagnrýni í utandagskrárumræðum á Alþingi í gær um sameiningu Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Rarik og að breyta sameinuðu orkufyrirtæki í hlutafélag. Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði slíkt rekstrarfyrirkomulag einkavædda einokunarstarfsemi. "Ekki bara hefði það fyrirtæki yfirburðastöðu á raforkumarkaði heldur ætti það líka grunnnetið sjálft, háspennulínurnar sem öll önnur fyrirtæki á markaðnum verða að keppa við." Valgerður svaraði gagnrýni Helga með því að benda á að núverandi eigendasamsetning raforkufyrirtækja væri ekki heppileg til að ná fram því markmiði raforkulaganna að stuðla að samkeppni í vinnslu og sölu raforku vegna hagsmunaárekstra eigenda Landsvirkjunar sem eiga allir í öðrum raforkufyrirtækjum. Fram kom hjá Valgerði að stefnt verði að því að sameinuðu fyrirtæki verði breytt í hlutafélag í fyrsta lagi 2008. Í máli Hjálmars Árnasonar, þingflokksformanns Framsóknarflokksins, kom fram að flokkurinn eigi eftir að fara í gegnum þá umræðu að breyta Landsvirkjun í hlutafélag og jafnvel selja, en slíkt hljóti að vera gert á flokksþinginu sem nú er fram undan. Þá gagnrýnir Guðni Ágústsson, varaformaður Framsóknarflokksins, Valgerði fyrir stefnuyfirlýsinguna um að setja Landsvirkjun á markað, þar sem slíkt hafi ekki verið gert í samráði við þingflokkinn. Hann hefur áhyggjur af því að missa völd á orkubúskapnum til erlendra aðila. Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að sameining fyrirtækjanna hefði ekki verið rædd til neinnar hlítar í þingflokknum og er andvígur þeirri ákvörðun, þar sem yfirburðir fyrirtækisins á markaði verður of mikil. Sigurður Kári Kristjánsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, segir að enginn þáttur málsins hafi komið honum á óvart, þar sem málið hafi í tvígang verið rætt innan þingflokksins. Þá hefur risið upp ágreiningur innan Reykjavíkurlistans, hvort Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafi haft umboð R-listans til að skrifa undir viljayfirlýsingu um sölu hlutar Reykjavíkurborgar og áskilja Vinstri grænir sér nú rétt til að leggjast gegn sölu á hlut borgarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×