Innlent

Deilt um friðargæsluna

Alþingiskonur stjórnarandstöðunnar deildu hart á íslensku friðargæsluna í dag og sögðu hana skilgetið afkvæmi karla. Konum hefur fækkað í friðargæslunni enda verkefnaval hennar konum í óhag eins og ný skýrsla leiðir í ljós. Það voru nær einungis konur sem tóku þátt í umræðum á Alþingi í dag um hervæðinguna og karlmennskuandann sem svífur yfri vötnum í íslensku friðargæslunni. Þingkonur fengu óvæntan liðsauka í umræðunni þegar Davíð Oddsson lýsti yfir vilja sínum til að breyta áherslum í friðargæslunni þar sem 84 prósent friðargæsluliða eru karlar. Davíð sagði gagnrýnina réttmæta en að hann væri nýr í ráðuneytinu og verkefnin hefðu verið ákveðin í tíð fyrirrennara síns. Kolbrún Halldórsdóttir, vinstri - grænum, sagði að henni skildist á orðum utanríkisráðherra að von væri á að íslenska friðargæslan hætti að vera hið skilgetna afkvæmi karla og fengi nú að njóta samþættingar og jafnréttissjónarmiða eins ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna gerði ráð fyrir. Davíð Odsson ítrekaði að lokum að utanríkisráðuneytið ætti að gæta jafnréttissjónarmiða til hins ýtrasta. Hitt væri hins vegar umhugsunarefni fyrir alla að verið væri að tala um að skipta liðinu nokkurn veginn eftir hlutverkunum og ef utanríkisráðherrann væri kona, sem hann yrði einn góðan veðurdag og vonandi fyrr en síðar, myndu konur eingöngu hafa tekið til máls á þinginu í dag. Það væri umhugsunarefni að liðsskiptingin í umræðunni væri ekki jafnari en raun bæri vitni. „Eigum við ekki að taka okkur á í þessum efnum,“ sagði Davíð að lokum við góðar undirtektir úr sal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×