Innlent

Pólverjar á Íslandi syrgja páfa

Alls búa um 1850 Pólverjar á Íslandi og eru þeir dreifðir um allt land. Á Suðueyri við Súgandafjörð búa um 30 Pólverjar og tóku þeir sér allir frí frá vinnu í gær til að fylgjast með útförinni og syrgja páfa. Ekki komu þeir þó saman í kirkju bæjarins eins og fréttir hermdu heldur komu menn saman í heimahúsum þar sem hægt var að ná gerfihnattaútsendingum frá Póllandi.

Á Stöðvarfirði kom upp smámisklíð milli stjórnenda hjá fiskvinnslu Samherja á staðnum og níu Pólverja sem þar vinna, en Pólverjunum var í fyrstu meinað um frí til að fylgjast með útför páfa. Ástæðan var sú að starfsemi vinnslunnar myndi að mestu lamast við þetta, enda Pólverjarnir ríflega þriðjungur starfsmanna.

Málið leystist þó í mesta bróðerni með aðstoð góðra manna og fengu Pólverjarnir að horfa á útsendinguna frá Róm og sneru aftur til vinnu eftir hádegið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×