Innlent

Setur ofan í við umboðsmann

Landbúnaðarráðherra setur ofan í við umboðsmann Alþingis og segir ákveðna hluti í nýju áliti hans ekki vera í verkahring umboðsmanns eða á hans valdi. Umsækjandi um stöðu rektors Landbúnaðarháskóla Íslands, sem ekki fékk stöðuna, kvartaði til umboðsmanns Alþingis þar sem hann taldi að Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra hafi verið vanhæfur til að skipa í embættið vegna vinfengis við þann sem embættið fékk. Umboðsmaður taldi að ráðherra hafi ekki verið vanhæfur því tengsl hans og þess sem ráðinn var hafi ekki verið þess eðlis. Þegar umboðsmaður var að vinna málið lagði hann ýmsar spurningar fyrir landbúnaðarráðherra. Ráðherrann svaraði skriflega og sagðist hafa talið sig hafa rökstutt ákvörðun sína með fullnægjandi hætti. Síðar í bréfinu segist hann ekki telja það í verkahring umboðsmanns Alþingis að yfirfara eða endurskoða ákveðin efnisleg atriði; mat á hæfi og hæfni umsækjenda, þar með talið frammistöðu þeirra í starfsviðtölum, liggi hjá landbúnaðarráðherra og að efnislegt endurmat með umbeðnum samanburði á einstökum umsækjendum sé ekki á valdi umboðsmanns Alþingis. Í áliti sínu gerir umboðsmaður athugasemdir við að svör landbúnaðarráðherra og upplýsingagjöf til umboðsmanns Alþingis hafi ekki verið í samræmi við þær skyldur sem hvíldu á ráðherra sem stjórnvaldi gegn umboðsmanni. Umboðsmaður beinir þeim tilmælum til ráðherra að framvegis verið tekið tillit til þessara athugasemda í svörum til umboðsmanns Alþingis.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×