Innlent

Nýir sendiherrar

Markús Örn Antonsson útvarpsstjóri fer til starfa hjá utanríkisþjónustunni 1. september næstkomandi og verður sendiherra í Kanada með aðsetur í Ottawa. Guðmundur Árni Stefánsson þingmaður Samfylkingarinnar verður sendiherra í Stokkhólmi frá sama tíma og hættir því þingmennsku í sumar. Ekki hefur verið tilkynnt um breytingar í sendiráði Íslands í Mósambík. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er í undirbúningi að flytja sendiráðið frá Mósambík til Suður Afríku. Gert er ráð fyrir að Sigríður Dúna Kristmundsdóttir mannfræðiprófessor við Háskóla Íslands taki við sendifrúarstöðu þar næsta vor. Kjartan Jóhannsson, sendiherra í Brüssel, Jón Baldvin Hannibalsson, sendiherra í Helsinki og Þorsteinn Pálsson, sendiherra í Kaupmannahöfn flytjast allir til Íslands samkvæmt tilkynningu utanríkisráðuneytisins í gær. Ýmsar aðrar breytingar verða á mannahaldi í utanríkisþjónustunni. Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Genf flyst til Brüssel, en sendiherra í Genf verður Kristinn F. Árnason skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofunnar. Jón Egill Egilsson tekur við starfi hans þar. Hannes Heimisson aðalræðismaður í New York verður sendiherra í Helsinki. Guðmundur Eiríksson sendiherra í Kanada fer í leyfi frá störfum og Sigríður Snævarr flyst á skrifstofu ráðuneytisstjóra og og verður staðgengill Gunnars Snorra Gunnarssonar ráðuneytisstjóra. Ásgeir Friðgeirsson, sjálfstætt starfandi ráðgjafi, er næsti maður á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi og ætti samkvæmt því að taka við þingsæti Guðmundar Árna Stefánssonar þegar hann hefur störf í utanríkisþjónustunni. Ásgeir kveðst ekki enn hafa gert upp við sig hvort hann taki þingsætið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×