Innlent

Ráðuneytum fækkað í sex?

Árni Magnússon félagsmálaráðherra telur að fækka megi ráðuneytunum í allt að sex og sameina ríkisstofnanir um leið. Hann segir stjórnarflokkana sammála um þörfina á breytingum. Nú eru starfandi ellefu ráðherrar í ríkisstjórn. Af orðum forsætisráðherra á Austurvelli í morgun má ráða að stefnt sé að meiriháttar breytingum á þeirri skipan. Árni Magnússon félagsmálaráðherra reifaði hugmyndir um fækkun ráðuneyta á síðasta flokksþingi Framsóknarflokksins þar sem gert var ráð fyrir einu atvinnuvegaráðuneyti, velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti og svo forsætis-, utanríkis og menntamálaráðuneytum. Forsætisráðherra lýsir varla svona nokkru yfir án samráðs við samstarfsflokkinn. Aðspurður hvort sjálfstæðismenn séu sammála um þörfina á breytingum segir Árni svo vera. Hver niðurstaðan verði sé hins vegar auðvitað ekki vitað fyrirfram. Hann segir stefnt að því að ljúka vinnunni fyrir næstu kosningar. Árni segir sameiningu ráðuneyta ekki það eina sem hægt sé að gera til að ná markmiðinu um skilvirkari stjórnsýslu, til dæmis séu margar ríkisstofnanir of smáar, þær megi sameina og þar með fækka þeim og stækka. En er von til þess að ellefu ráðherrar í ríkisstjórn geti komið sér saman um að fækka stólum um fimm? Hugsar ekki hver um að halda sem fastast í sinn stól? Árni svarar því til að þegar farið sé í svona vinnu sé grundvallaratriði að menn velti því einmitt ekki fyrir sér „hverjir sitja og hverjir standa“.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×