Erlent

Hvalveiðisinnar guldu afhroð

Hvalveiðisinnar guldu afhroð á fundi alþjóðahvalveiðiráðsins sem lauk í Suður-Kóreu í morgun. Þó að nafnið gefi til kynna að þar sé á ferðinni ráð sem hafi umsjón með veiðum, er meirihluti aðildarríkjanna á því að friða hvali með öllu. Þrátt fyrir ákafar og jafnvel útsmognar tilraunir Japana til að breyta afstöðu hvalveiðiráðsins er ljóst að enn er langt í að hvalveiðar verði samþykktar á ný. Hvalfriðunarsinnar ráða þar ríkjum og fengu sínu framgengt á fundinum sem lauk í morgun. Hvalagriðarsvæði verða til að mynda framvegis í öllu Suður-Atlantshafi og umhverfis Suðurskautslandið. Japanar voru hvattir til að fara ekki eftir vísindaveiðaáætlun sinni en áætlun Íslendinga var ekki gagnrýnd. Engin niðurstaða fékkst hins vegar um stjórnkerfi hvalveiða í atvinnuskyni en deilt hefur verið um þau mál í á annan áratug. Skyldi engan undra að niðurstöðurnar séu með þessum hætti. Japanar hafa oft verið sakaðir um að veita rausnarlega þróunaraðstoð - í raun mútur - til ríkja sem ganga í ráðið til að greiða atkvæði með hvalveiðum. Önnur ríki og náttúruverndarsamtök hafa verið sökum um viðlíka starfshætti gegn því að greiða atkvæði gegn hvalveiðum. Í hvalveiðiráðinu eru nú fimmtíu ríki og þar eru átta lengst uppi í landi. Hvað þau hafa með stjórnun hvalveiða, sem er jú formlegt hlutverk ráðsins, er vandséð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×