Innlent

Blað brotið í skipulagsumræðu

Skipulagstillagan sem varð ofan á í bindandi kosningu íbúa á Seltjarnarnesi um helgina gerir ráð fyrir heldur minni fjölgun íbúa á Nesinu en sú sem varð undir. Að sögn Jónmundar Guðmarssonar bæjarstjóra munar þar um 120 íbúum. "Íbúum fylgja skatttekjur, en við miðum auðvitað bara frekari útreikninga okkar og forsendur í fjármálum bæjarins við þá aukningu sem niðurstaða varð um," segir Jónmundur og fagnar því að niðurstaða skuli fengin í málinu. Hann segir bæjaryfirvöld ekki hafa uppi ráðagerðir um fjölgun annars staðar á Nesinu að svo stöddu. "Aðalskipulag bæjarins er þó vissulega í vinnslu, en viðurkennast verður að orðið er frekar fátt um fína drætti hvað þau mál snertir." Jónmundur segir tvenns konar tímamót falin í kosningunni um helgina. "Annars vegar er blað brotið í skipulagsumræðu að bæjarstjórn skuli reiðubúin að leggja tvo skuldbindandi kosti í hendur íbúa að velja á milli. Það finnst mér vera eftirtektarverð nýbreytni. Því til viðbótar felast heilmikil tímamót í því fyrir okkur Seltirninga að fá niðurstöðu í málinu," segir hann, en lengi hefur verið deilt um skipulag á Hrólfsskálamel og Suðurströnd. "Við erum með þessu komin með umboð frá Seltirningum á kosningaaldri til þess að vinna að tilteknu skipulagi á svæðinu og ráðast í fyllingu tímans í framkvæmdir sem allir hafa beðið með óþreyju, en erfitt hefur verið að ná utan um hvernig menn vildu hafa." Þá kveðst Jónmundur nokkuð sáttur við þátttöku í kosningunni, þó svo ef til vill hefði mátt búast við að hún yrði meiri miðað við hve málið hefur verið sagt mikið hitamál. "Mér finnst þó 52 prósent kjörsókn gefa til kynna að fólk hafi látið sig málið varða. Kannski var ekki svo mikill munur á fylgi við hvora tillögu fyrir sig en þó nægilegur til að niðurstaðan var afgerandi og skýr. Hún treystir þann grunn sem við byggjum frekari framkvæmdir á."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×