Innlent

Gunnar vill óperuna í Kópavoginn

Gunnar I. Birgisson, bæjarstjóri í Kópavogi, vill reisa óperuhús fyrir íslensku óperuna á ónotaðri lóð sunnan við Gerðarsafn í miðbæ Kópavogs. Þegar hafa verið unnar frumteikningar að óperuhúsi sem Gunnar telur að gæti kostað 1,5 til tvo milljarða króna. Gunnar vill byggja óperuna á svæði sem kallast menningartorfan. Eftir að óperuhúsið er risið vill Gunnar tengja það og Gerðarsafn, Salinn, Bókasafnið og Náttúrugripasafnið saman með glerhýsi. Samkvæmt frumteikningunum er gert ráð fyrir 250 fermetra húsi sem tæki 600 til 700 manns í sæti. Hugmyndin hefur hvorki verið kynnt fyrir bæjarstjórn Kópavogs né stjórn íslensku Óperunnar. "Orð eru til alls fyrst," segir Gunnar. "Ég er að leggja þessa hugmynd fram og tel hana vera raunhæfa. Ef farið verður strax í málið getum við haldið tónleika eftir tvö og hálft ár." Gunnar segist hafa talað við marga áhugamenn um óperur og þeir hafi allir tekið mjög vel í þessa hugmynd. Gunnar segir óperuna heyra undir ríkið, en Kópavogsbær væri þó auk þess að leggja fram byggingarlóð tilbúinn til að leggja fram fjárhagslegan stuðning. Hann er vongóður um að ríkissjóður og góðvinir óperunnar myndu veita fé til slíkrar byggingar. Hann býst við að núverandi húsnæði óperunnar í Ingólfsstræti myndi seljast dýrt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×