Innlent

Réttindi samkynhneigðra

Össur Skarphéðinsson vill að á næsta þingi verði lögum breytt til að leyfa frumættleiðingar samkynhneigðra og kirkjuvígslu á hjónaböndum þeirra. "Ég er þeirrar skoðunar að það sé gróf mismunun gagnvart samkynhneigðum að þeir fái ekki að helga hjónaband sitt frammi fyrir guði ef að þeir eru trúaðir og óska þess," sagði Össur í samtali við Fréttablaðið. Hann telur að lögin stangist á við breytingarnar sem gerðar voru á mannréttindaákvæði stjórnarskránnar 1995 sem segir að ekki megi mismuna vegna kynhneigðar. "Þess utan finnst mér slæmt að kirkjan skuli vera í fylkingarbrjósti þeirra sem vilja mismuna gegn samkynhneigðum," segir hann. Össur vill að samkynhneigðir geti frumættleitt börn og segir að annað sé brot á stjórnarskránni. "Það er alveg ljóst að við þingmenn Samfylkingarinnar og hugsanlega fleiri munum leggja fram þingmál um breytingar á þessu á næsta þingi, ef ríkisstjórnin gerir það ekki," segir Össur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×