Innlent

Stefnir í upplausn R-listans

Auknar líkur eru á að störfum viðræðunefndar flokka R-listans ljúki með því að listinn verði leystur upp, segir heimildarmaður Fréttablaðsins úr röðum Vinstri grænna. Það er ágreiningur Vinstri grænna og Samfylkingar um fjölda fulltrúa hvers flokks á listanum sem gæti riðið R-listanum að fullu. Sá ágreiningur byggist á því að Samfylkingin vill fá fjóra til fimm borgarfulltrúa eða láta kjósa inn á listann í opnu prófkjöri meðan Vinstri grænir vilja tryggja jafna aðkomu flokkanna. Heimildarmaður blaðsins segir enn fremur að greina megi á mörgum Samfylkingarmönnum að þeir líti á Vinstri græna sem olnbogabarn sem gott væri að losa sig við eftir að þeir reyndust Samfylkingunni erfiður ljár í þúfu, bæði þegar Þórólfur Árnason sagði af sér sem borgarstjóri og í Landsvirkjunarmálinu. Sverrir Jakobsson, varamaður Vinstri grænna í viðræðunefnd um R-listann , segir að ef ekki náist sátt um málið muni flokkarnir bjóða fram hver í sínu lagi en þó ganga bundnir til kosninga. Annar heimildarmaður Vinstri grænna telur hins vegar litlar líkur á því að Samfylkingin sjái hag sinn í því þar sem flokkurinn muni reyna að ná fylgi frá hægri. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir segir að aldrei hafi verið jafnt hlutfall fulltrúa flokkanna á listanum heldur hafi alltaf verið litið til fylgis flokkanna enda sé það lýðræðislegt. Hún segir Samfylkinguna síður en svo líta á VG sem olnbogabarn þótt flokkarnir hafi tekist á sem samstarfsflokkar. Eins og áður hefur komið fram í Fréttablaðinu vilja Framsóknarmenn hins vegar í fremstu lög halda samstarfinu áfram og hafa í þeirri viðleitni rætt það lauslega að láta Orkuveituna í hendur Vinstri grænna. Fulltrúi Framsóknarflokksins í viðræðunefndinni segist ekki kannast við að fulltrúar samstarfsflokkanna tveggja séu farnir að hóta því að bjóða fram einir. Hann segir Orkuveituna ekki heilagt vígi Framsóknarmanna. Viðræðunefndin kemur aftur saman á mánudaginn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×