Sport

Mourinho byrjaður

Það fer ekki á milli mála að undirbúningstímabilið í ensku knattspyrnunni er að byrja, því Jose Mourinho knattspyrnustjóri Chelsea er byrjaður að gefa út yfirlýsingar. Í samtali við enska fjölmiðla um helgina sagði Portúgalinn að hann teldi mesta eyðslutímabilið afstaðið hjá félaginu og segir að framvegis verði mun minni umsvif í leikmannamálum. Þá tjáði hann sig um komu sína inn í ensku úrvalsdeildina í fyrra og viðurkenndi að stórkarlalegar yfirlýsingar sínar hefðu allt eins getað komið honum í bobba og sagðist hann í raun heppinn að herbragð hans hefði virkað. "Ég kom strax og lýsti því yfir að ég væri svo sérstakur að ég gæti alveg unnið titil á mínu fyrsta ári með Chelsea og að Manchester United og Arsenal væru stóru liðin í enska boltanum. Þá sagði ég strákunum í liðinu að þeir gætu ekki talist almennilegir knattspyrnumenn fyrr en þeir sigruðu í ensku deildinni eða meistaradeildinni. Það hefði getað brugðið til beggja vona með þetta en sem betur fer voru leikmennirnir nógu sterkir til að standast pressuna og nota hana sér til hvatningar," sagði Mourinho. "Við náðum frábærum árangri í fyrra og mér finnst tölurnar tala sínu máli þegar ég segi að við séum besta lið í sögu úrvalsdeildarinnar," sagði Portúgalinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×